Yfirlýsing: Við stöndum með friðsömum mótmælum og köllum eftir aðgerðum stjórnvalda

Þegar stjórnvöld bregðast skyldum sínum eru mótmæli oft eina leið okkar til að lýsa yfir óánægju, verja réttindi okkar og draga stjórnvöld til ábyrgðar. Sá réttur er lögvarinn í stjórnarskrá Íslands. 

Þann 22. janúar næstkomandi mun íslenska ríkið draga friðsamlega mótmælendur fyrir dóm. Á sama tíma og brot á dýravelferðarlögum við hvalveiðar hafa haft sáralitlar afleiðingar. Íslensk stjórnvöld hafa brugðist okkur í málefnum hvala, þau hafa brugðist dýrum sem brotið er á samkvæmt lögum um velferð dýra. 

Núverandi stjórnvöld vita og eru sammála um að hvalveiðar brjóta lög um velferð dýra. Bæði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafa sagt að reglugerð um hvalveiðar sé „gömul og úrelt” og að brýnt sé að lagfæra hana eða banna hvalveiðar alfarið.

Þegar skýrsla starfshóps um lagaumgjörð hvalveiða var birt í samráðsgátt stjórnvalda í maí í fyrra (2025) sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra í viðtali:

 „Markmiðið er að á haustmánuðum leggi ég fram frumvarp til laga varðandi þessi mál,“


Einnig sagði hún: „Ég held það sé alveg ljóst að það þarf breytingar á núgildandi lögum, kostirnir eru þessir; að halda áfram óbreytt, sem er ekki inni í myndinni hjá mér, að herða skilyrðin eða bókstaflega finna leiðir til að banna hvalveiðar.“

Við trúðum því og treystum að atvinnuvegaráðherra myndi standa við þau orð og leggja fram frumvarp síðastliðið haust en svo varð ekki. 

Nú er liðið rúmt ár síðan Samfylkingin, Flokkur fólksins og Viðreisn mynduðu ríkisstjórn, allt flokkar sem opinberlega voru á móti hvalveiðum fyrir kosningarnar, en ekkert hefur þó enn verið gert! Reglugerðin er enn sú sama, gömul og úrelt.

Tvö virk hvalveiðileyfi eru í gildi, leyfi sem hlutaðeigandi geta notað þegar þeim sýnist og hafa margoft sagst ætla að nota. Reynslan sýnir að það er ekki heillavænlegt þegar stjórnvöld draga lappirnar fram á síðustu stundu. Svandís Svavarsdóttir, fyrrum matvælaráðherra hlaut ávítur fyrir að gera það á sínum tíma og slíkt má ekki endurtaka sig.

Við biðlum til stjórnvalda að standa við orð sín.

Eins og sakir standa þá tekur Umboðsmaður Alþingis ekki fyrir margvíslegar kvartanir frá samtökum sem berjast fyrir náttúruvernd vegna ákvarðanna stjórnvalda sem hafa íþyngjandi afleiðingar fyrir náttúru og dýr, líkt og hvalveiðileyfin sem gefin voru út haustið 2024. Þar sem umboðsmaður hefur ályktað að félagasamtök „séu ekki beinir hagaðilar að málum”. Við sjáum ekki hvernig það samræmist skuldbindingum Íslands sem aðili að Árósarsamningnum sem ætlað er að tryggja almenningi þátttöku í ákvarðanatöku og aðgengi að réttarúrræðum í málum er varða umhverfið. Þessi ákvörðun takmarkar getu okkar til aðhalds með stjórnvöldum verulega.

Hvalveiðar skaða orðspor íslendinga á alþjóðavettvangi og alþjóðasamfélagið fylgist að sama skapi með dómsmáli þar sem réttað er yfir friðsömum mótmælendum sem voru reiðubúnir að taka verulega persónulega áhættu til að verja hvalina sem stjórnvöld brugðust, það mál varpar enn dekkri skugga á okkur.

Rík réttlætiskennd og ósérhlífni Anahitu Babaei og Elissu Phillips fékk þær til að leggja öryggi sitt og frelsi að veði og klifra upp í möstrin. Það var síðasta úrræði  þeirra til að koma í veg fyrir frekari dráp á saklausum dýrum. Dýrum sem ríkinu ber lagaleg skylda til að vernda en brást.

Þær nýttu stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að mótmæla með friðsömum hætti en sæta nú ákæru, ekki frá eigendum hvalveiðibátana, heldur frá löggjafanum sjálfum. 

Anahita og Elissa munu fara fyrir dóm, og þær munu taka afleiðingum gjörða sinna. 

Kristrún, Þorgerður Katrín, Inga Sæland og Hanna Katrín, ætlið þið að gera hið rétta?

Munu hvalir synda frjálsir um íslenska lögsögu í sumar eða mun hafið verða aftur blóði drifið?

Við hvetjum ykkur til að leggja fram frumvarp um bann við hvalveiðum áður en það er of seint!

Undirrituð,

Hvalavinir- vernd hafsins

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn

Landvernd

Náttúruverndarsamtök Íslands

Samtök grænkera á Íslandi

Samtök um dýravelferð á Íslandi

Ungir umhverfissinnar


Sýnum mótmælendum samstöðu í Héraðsdómi 22. janúar kl. 8:30

Facebook viðburður

Next
Next

Við þurfum að friða 30% hafs (myndband)