Við þurfum að friða 30% hafs (myndband)

Hafið er grundvöllur lífs okkar, ekki bara á Íslandi, heldur á jörðinni allri. Helmingur alls súrefnis kemur úr hafinu, stór hluti fæðis og lífviðurværis milljarða manna.

Við í breiðfylkingu umhverfisverndarsamtaka viljum með þessu myndbandi fræða fólk um 30x30 markmiðið svokallaða, sem snýst um að fyrir 2030 ætlum við að vera búin að vernda að minnsta kosti 30% af hafi og landi. 

Við vitum fyrir víst að verndun er forsenda heilbrigðis hafs til framtíðar, þrátt fyrir það höfum við þó enn aðeins friðlýst 0.07% af efnahagslögsögu Íslands. Á landi gengur betur, hvar um fjórðungur landsins nýtur verdar með lögum.

En það er af nógu að taka! Litrík kóralrif, neðansjávarfjöll og hryggir, marhálmsbreiður, kalkþörungabeð og svampagarðar eru búsvæðin sem sjávarauðlindin okkar sprettur úr og samkvæmt lögum ber okkur að vernda hana.

Við eigum þetta auðuga haf saman, og nú er kominn tími til að við stöndum saman um að vernda það. 

15-16 september er Umhverfisþing þar sem sérfræðingar, hagsmunaaðilar  og stjórnvöld munu koma saman, fræðast og ræða um stöðu hafsins og aðgerðir sem þarf að fara í til að vernda það.

Við biðlum til ráðamanna í landinu að taka málefnið alvarlega og grípa til aðgerða eigi síðar en núna!

Þekkingin er til staðar, gögnin eru til, það eina sem vantar er samstaða og vilja til að gera það sem þarf.

Sigrún Perla Gísladóttir fh. AEGIS

Valgerður Árnadóttir formaður, Hvalavinir – Vernd hafsins

Anahita S.Babaei meðstofnandi, Last whaling station

Þorgerður María Þorbjarnardóttir formaður, Landvernd

Laura Sólveig Lefort Scheefer forseti, Ungir umhverfissinnar

Stefán Jón Hafstein formaður, Aldin gegn loftslagsvá

Árni Finnsson formaður, Náttúruverndarsamtök Íslands

Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir fh. SOA Iceland


Endilega kynnið ykkur málið með því að horfa á myndbandið hér að ofan og smellið á “subscribe” að Youtube rás okkar!

Next
Next

For the love of iceland